Icelandic: just for that

Gavril

Senior Member
English, USA
Sæl,

Þið vitið víst hvað enska orðatiltækið "just for that ..." þýðir, en samt hef ég búið nokkrar setningar til:


Vinur 1: Ég heyrði að hann Arnkell er að reyna að laða viðskiptavini þína, með því að bjóða fimm aura afslátt af stjörnuskrúfum í járnvöruversluninni sinni.

Vinur 2: Hvað!! Ég ætlaði að bjóða Arnkeli í litskyggnusýningu um sumarferðina mína, en just for that má hann ekki koma!!


Hvernig mynduð þið þýða þetta orðatiltæki, og hvernig gæti ég öðruvísi bætt þessar setningar?

Takk
 
 • Segorian

  Senior Member
  Icelandic & Swedish
  Vinur 1: Ég heyrði að hann Arnkell er að reyna að laða viðskiptavini þína, með því að bjóða fimm aura afslátt af stjörnuskrúfum í járnvöruversluninni sinni.
  Sögnin að laða er nær alltaf notuð með forsetningarlið á borð við að sér eða til sín:

  Arnkell er að reyna að laða viðskiptavíni þína til sín

  Hvað!! Ég ætlaði að bjóða Arnkeli í litskyggnusýningu um sumarferðina mína, en just for that má hann ekki koma!!
  Orðin litskyggna og litskyggnusýning eru rétt, en þau voru alltaf mjög lítið notuð og mega heita úrelt. Fólk sem komið er yfir fertugt veit hvað þetta er en notar ekki orðin. Orðin slidesmyndir (eða slædsmyndir) og slidesmyndasýning hafa alltaf verið algengari, sérstaklega í töluðu máli.

  Ég stenst það ekki að setja inn þessa tilvitnun af Wikipediasíðunni:

  Home slide shows were a relatively common phenomenon in middle-class American homes during the 1950s and 1960s. If there was an enthusiast in the family, any visit from relatives or the arrival of a new batch of Kodachrome slides from the film processing service provided an excuse to bring out the entire collection of 35 mm slides, set up the slide projector and the screen, turn out the lights, then test the endurance of the assembled audience with a marathon of old vacation photos and pictures taken at weddings, birthdays and other family events, all accompanied by live commentary.

  (Á Íslandi voru sýningar af þessu tagi algengar alveg fram á níunda áratuginn.) Þegar talað er um „slide“ í merkingunni „presentation slide“ er nú á dögum notað orðið glæra.

  Orðið sumarferð þýðir oftast „ferð sem farin er að sumri til“ og vísar ekki sérstaklega til sumarleyfisferða. Betra væri einfaldlega um sumarleyfið mitt eða úr sumarleyfinu mínu.

  Ég þekki ekkert orðatiltæki sem samsvarar vel „just for that“ en merkingunni má ná með ýmsum hætti, t.d.:

  Ég ætlaði að… en núna er ég alveg hættur við það!
  Ég ætlaði að… en núna fær hann bara alls ekki að koma!
   

  Gavril

  Senior Member
  English, USA
  (Á Íslandi voru sýningar af þessu tagi algengar alveg fram á níunda áratuginn.)

  Einnig í Bandaríkjunum, að nokkru leyti. Ég sá slíkar sýningar a.m.k. tvisvar í 00-áratuginum.

  Eitt af þessum tilfellum var þó kannski ekki sönn "litskyggnusýning", heldur einhver sýndi okkur myndir frá fartölvunni sinni. Á ensku er þetta stundum enn kallað "slideshow", a.m.k. af fólki yfir ~35-40 ára. Hvað myndi það venjulega kallast á íslensku?

  Takk aftur
   
  Last edited:

  Segorian

  Senior Member
  Icelandic & Swedish
  Á ensku er þetta stundum enn kallað "slideshow", a.m.k. af fólki yfir ~35-40 ára. Hvað myndi það venjulega kallast á íslensku?
  Í almennu tali var þetta kallað slidesmyndasýning eða einfaldlega að sýna slidesmyndir. Í rituðu máli voru orðin litskyggna og litskyggnusýning algengari.

  Ef einhver væri aftur á móti að varpa myndum úr tölvunni sinni upp á vegg eða tjald nú á dögum myndi hann sennilega kalla það einfaldlega myndasýningu (ekki ljósmyndasýningu, því að það er „photo(graphy) exhibition“).
   
  Top